Aðlögun barns og þáttur starfsfólks í aðlöguninni.

Í Hlíð er stuðst við svokallaða þátttökuaðlögun. Eins og nafnið ber með sér er átt við aðlögun þar sem foreldrar taka virkan þátt í starfi leikskólans á aðlögunartímanum.
Þátttökuaðlögun byggir á þeirri hugmynd að börn og foreldrar kynnist leikskólanum saman og tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og læra af foreldrum hvað hentar hverju barni best.
Aðlögunin fer þannig fram að foreldrar eru með barni sínu í aðlöguninni og taka þá í starfseminni á meðan. Markmiðið er að skapa trúnað og traust milli foreldra og leikskólakennara sem sé grundvöllur undir farsælt samstarf þessara aðila. Með því að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi kynnast þeir dagsskipulaginu og því sem fram fer í leikskólanum.


Foreldri og barn koma í stutta heimsókn á deildina á umsömdum tíma. Næstu daga er mæting á fyrirfram ákveðnum tíma og sá tími sem barn og foreldri eru í leikskólanum er lengdur smá saman er líður á fyrstu vikuna. Áætla má að aðlögun barns taki u.þ.b. 7 virka daga.


Að sjálfsögðu skoðum við aðlögunina út frá hverjum einstaklingi.


Upplýsingaflæði

Til að tryggja upplýsingaflæði til foreldra eru töflur í fataklefum deilda þar sem upplýsingar ætlaðar foreldrum eru settar upp.

Á heimasíðu leikskólans eru einnig settar inn nýjustu fréttir, upplýsingar um deildar, viðburði, söngtextar, myndir af börnunum o.fl. Lykilorð að síðu barns má nálgast hér

Karellen er app/smáforrit sem notað er í Hlíð jafnhliða heimasíðunni. Þar má sjá myndir, senda stutt skilaboð milli heimilis og skóla. Tilkynna veikindi o.fl. Við hvetjum foreldra til að hlaða niður þessu appi/smáforriti.


Foreldrasamtöl

Skipulögð foreldrasamtöl eru tvö á ári, fyrir og eftir áramót. Fyrir viðtölin hafa deildarstjórar og starfsfólk fyllt út athugunarlista vegna þroskaþátta. Deildarstjóri sér að öllu jöfnu um viðtalið. Foreldrar fá einnig tækifæri til að koma með sínar spurningar og miðla upplýsingum um barnið heima fyrir. Áætlaður tími foreldrasamtala er 15 mín. Fyrir utan skipulögð viðtöl geta foreldrar óskað eftir viðtali.

Mikilvægt er að deildarstjórar fái upplýsingar um breytingar á högum og aðstæðum í fjölskyldu barnsins sem fyrst þar sem þær geta haft áhrif á líðan barnsins á leikskólanum.

Aðrar upplýsingar til foreldra:

  • Vinsamlegast virðið umsaminn vistunartíma barna ykkar – allt starfsmannahald leikskólans tekur mið af vistunartíma barnanna.
  • Allar breytingar á vistunartíma þarf að sækja um með mánaðar fyrirvara – miðað er við 1. hvers mánaðar og eru gerðar í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar.
  • Einstaklingar yngri en 12 ára eiga ekki að sækja börn í leikskólann.
  • Vinsamlegast tilkynnið veikindi, frí og önnur forföll til leikskólans.
  • Það er mikilvægt að merkja allan fatnað barnanna.
  • Tæma skal hólf barnanna í lok dags og yfirfara töskur þeirra.