news

Þriðji Grænfáninn í höfn

23 Jún 2022

Við fengum afhentan okkar þriðja Grænfána þann 16. júní s.l. við hátíðlega athöfn í salnum okkar. Við erum afar stolt af því en þetta tímabil höfum við verið með áherslu á Lýðheilsu – sem miðar m.a. að því að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu barna og starfsfólks, með almenna vellíðan að markmiði en innan lýðheilsu rúmast þættir eins og hreyfing, næring og geðrækt. Það er okkar von með grænfánaverkefninu að börnin verði betur læs á umhverfi sitt, samfélag, menningu og náttúru. Verði betur til þess fallin að skynja og skilja umhverfi sitt.

Allir nemendur hafa verið duglegir að taka þátt vinnunni að okkar þriðja fána en tímabilið er 2 ár. Við höfum m.a. verið að vinna í vináttuverkefni Barnaheilla og æfingum sem því fylgir í sambandi við virðingu, umburðarlyndi, hugrekki og umhyggju. Eins höfum við lagt áherslu á þátttöku í útileikstundum, að borða hollan mat og verið dugleg í hreyfistundum í salnum. Börnin hafa unnið með hreyfingu og líkama í ýmis konar listastarfi s.s. mála og dansa, hreyfisöngvar og allir taka þátt í vikulegri söngstund í sal en allt ofan talið stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan. Foreldra- og starfsmannakannanir hafa komið vel út. Þær áherslur sem við höfum unnið eftir tengjast aðalnámskrá leikskóla m.a. þannig að í aðalnámskrá segir að allt skólastarf þurfi að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan barna. Að í skólum þurfi að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem hlúð er að þroska og heilbrigði. Að leggja skuli áherslu á jákvæða sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlega vellíðan og góð samskipti og hefur þetta allt verið okkar leiðarljós í vinnunni að okkar þriðja grænfána.

Önnur verkefni hafa samhliða verið að vinna með moltu, endurvinna, flokka og almennt eru allir þátttakendur í því. Áhersla er á að hafa allt margnota sem hægt er innan leikskólans og um leið endurvinnanlegt sem hefur gengið nokkuð vel.

Landvernd stýrir Grænfánaverkefninu


Umhverfissáttmálinn okkar:

Sólin skín og grasið grær
gaman er að lifa.
Lyngið fagurt, lindin tær.
Litlir fætur tifa.

Höf. Ragnheiður Halldórsdóttir